VARÚÐARRÁÐSTÖFUN vegna COVID-19.
Ágæti lesandi!
Í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast hafa á landinu vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar, er nauðsynlegt að við á Sólheimum grípum til tiltekinna varúðarráðstafana til þess að reyna að koma í veg fyrir möguleg smit.
Hér á Sólheimum búa margir sem eru í sérstökum áhættuhópi og því hefur verið ákveðið að setja á tímabundið bann við heimsóknum ferðamanna niður í ,,kvosina,, þ.e. á vinnustofurnar og í Völu og Grænu. Ferðamenn geta því ekki lengur farið í mötuneytið, kaffihúsið eða í verslunina, né heldur er þeim heimilt að heimsækja vinnustofur eða aðra starfsemi inni á svæðinu. Nú er verið að vinna að því að útbúa skilti og tilkynningar þar sem þessi takmörkun á aðgengi er tilkynnt til ferðamanna og annarra sem hingað hafa lagt leið sína.
Einnig hefur verið ákveðið að loka fyrir heimsóknir ættingja og annarra gesta til Sólheima. Það er erfitt að taka slíka ákvörðun en nauðsynlegt í ljósi þess að neyðarstigi hefur verið lýst yfir. Ákvörðunin er tekin með velferð íbúanna á Sólheimum að leiðarljósi og er fólk beðið um að sýna þessari ákvörun virðingu og skilning. Það er augljóst að það getur reynst íbúum erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum og að sjálfsögðu einnig erfitt fyrir ættingjana og aðstandendur að fá ekki að koma í heimsókn.
Íbúar sólheima og starfsmenn eru hvattir til þess að draga úr ferðum út af svæðinu eins og kostur er og helst ekki að fara nema nauðsynlegt sé. Óþarfa verslunarferðir, kaffihúsaheimsóknir, Bíóferðir, sundferðir o.fl. í þessum dúr geta aukið hættu á smiti verulega og því gott að sleppa slíkum ferðum.
Við biðjum alla að fresta heimsókn til okkar, þar til annað verði ákveðið.
Við erum að hugsa um velferð okkar íbúa.