Menu
Menu
parallax

Móttaka hópa

Skipuleggðu ferð til Sólheima

Sólheimar er skemmtilegur staður fyrir ferðamenn að sækja heim. Hið listræna, skapandi, alþjóðlega og umhverfisvæna andrúmsloft sem ríkir á staðnum hefur sterkt aðdráttarafl. Loftið lyktar af grasrót og dugnaði. Umhverfið er fagurt og mannlífið margbrotið.

Það er alltaf eitthvað um að vera í menningarlífinu; myndlistarsýningar, tónleikar, messur í Sólheimakirkju og um helgar á sumrin eru ýmsar uppákomur í kaffihúsinu Grænu könnunni, leikþættir í leikhúsinu og útimarkaðir. Daglega heimsækir fjöldi fólks Sólheima og hefur gestum fjölgað jafnt og þétt í gegnum tíðina. Sífellt fleiri kjósa þá leið að skoða fjölbreytt atvinnulífið á staðnum í fylgd leiðsögumanns, sjá myndaskyggnusýningu, hlusta á fróðleik um sögu Sólheima, starfsemina og hugsjónirnar sem hún byggir á.

Það er ómissandi að hafa viðkomu í versluninni Völu sem hefur á boðstólum spennandi heilsuvörur, fjölbreytt úrval listmuna og handverks frá hinum mismunandi vinnustofum á Sólheimum. Síðan er tilvalið að setjast í góðu yfirlæti inn á kaffihúsið Grænu könnuna og bragða á veitingum framleiddum úr lífrænu hráefni.

Myndaskyggnusýning og gönguferð með leiðsögn

Sólheimar hafa áralanga reynslu í móttöku ferðamanna. Á boðstólum er metnaðargjörn móttökudagskrá fyrir hópa sem samanstendur af myndaskyggnusýningu og fyrirlestri í Sesseljuhúsi um sögu og starfsemi Sólheima. Síðan er farið í gönguferð með leiðsögn um svæðið. Að lokum gefst fólki færi á að fara í verslunina Völu og ef óskað er eftir, njóta veitinga í lífræna kaffihúsinu Grænu könnunni. Dagskráin tekur um það bil 1,5 – 2 klukkustundir.

Sesseljuhús býður jafnframt upp á fræðslupakka sem kallast Sjálfbær þróun og Sólheimar. Þar er fjallað almennt um sjálfbæra þróun, sjálfbærar byggingar og hvernig starfið á Sólheimum hefur tekið mið af umhverfismálum allt frá stofnun, árið 1930.

Fræðslupakkinn hefst á kynningu í ráðstefnusal þar sem fjallað er almennt um sjálfbæra þróun og sýndar myndir úr sögu Sólheima. Einnig er fjallað um hvaða kröfur eru gerðar til sjálfbærra bygginga og hvernig Sesseljuhús stenst þessar kröfur. Fræðslunni lýkur með gönguferð um byggðahverfið Sólheima þar sem fróðleikurinn úr kynningu og sýningu lifnar við.

Þjónusta fyrir hvataferðahópa og sérhópa

Sólheimar eru í vel stakk búnir til að taka á móti stórum hópum svo sem hvataferðahópum og sérhópum af ýmsu tagi sem viðkomustaður í dagsferð. Á boðstólum er fjölbreytt dagskrá sniðin eftir þörfum viðskiptavinarins, bæði fyrir hópa sem hafa viðkomu á Sólheimum í dagsferð og einnig ýmsar útgáfur af sælu og þemahelgum fyrir smærri hópa í samvinnu við Gistiheimilið Brekkukot.

Góð aðstaða er til veitinga fyrir stóra hópa í Kaffihúsinu Grænu könnunni sem tekur um 100 manns í sæti og í Sesseljuhúsi er glæsileg funda og ráðstefnuaðstaða. Möguleikar eru á mismunandi útgáfum af skoðunarferðum og fyrirlestrum.

Hafið samband við starfsmenn Sesseljuhúss fyrir nánari upplýsingar

Sími 855-6080
Netfang sesseljuhus(hjá)solheimar.is

Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!