Sesseljuhús umhverfissetur
Umhverfissetrið Sesseljuhús er fræðslusetur um umhverfismál og sýningarhús um sjálfbærar byggingar. Sesseljuhús er staðsett á Sólheimum í Grímsnesi og þar fer fram alhliða fræðsla um umhverfismál. Í Sesseljuhúsi er meðal annars boðið upp á námskeið fyrir bandaríska nemendur og fyrir nemendur Grunnskólans Kerhólsskóla, sem er grunnskólinn á Borg.
Haldin eru málþing, fundir og námskeið þar sem allir eru velkomnir. Á hverju sumri er opnuð sýning um umhverfismál í tengslum við Menningarveislu Sólheima og að auki er gefið út fræðsluefni sem bæði er hægt að nálgast hér á síðunni og í Sesseljuhúsi.
Unnið er í samstarfi við innlenda og erlenda aðila að fræðslu um umhverfismál og er fræðslustarfið samofið öðru starfi að umhverfismálum á Sólheimum. Þar má nefna skógræktarstöðina Öl, garðyrkjustöðina Sunnu, gisti- og heilsuheimilið Brekkukot, kertagerðina, jurtastofu, endurvinnsluna og Grænu könnuna sem er lífrænn veitingastaður.
Sesseljuhús er timburhús með grasþaki og voru sjónarmið umhverfisverndar í hávegum höfð við hönnun og smíði þess. Húsið opnaði 5. júlí 2002 en þá voru 100 ár liðin frá fæðingu Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur, stofnanda Sólheima, sem var langt á undan sinni samtíð í umhverfismálum. Fyrstu skóflustunguna tók Sif Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, en ríkisstjórnin lagði fram 75 milljónir króna til byggingar hússins.
Ráðstefnu- og fundaaðstaða
Sesseljuhús er leigt út til ráðstefnu- og fundahalds og hafa viðskiptavinir verið sérstaklega ánægðir með aðstöðuna. Húsið sjálft og hin fallega umgjörð á Sólheimum gefur fólki kraft til góðra verka yfir daginn en einnig tækifæri til að slaka á fjarri skarkala nútímans að fundi loknum. Húsið nýtur vaxandi vinsælda hjá fyrirtækjum til stefnumótunar og vinnufunda. Í húsinu er þráðlaust netsamband, stór ráðstefnusalur, fundaherbergi, notaleg arinstofa og píanó.
Sesseljuhús er um 850 fermetrar að gólfmáli og bæði bjart og rúmgott. Gengið er inn í rúmgóða arinstofu með sætum fyrir um 50 manns. Þaðan er innangengt í eldhúskrók með aðstöðu til að hella uppá kaffi og te ásamt ísskáp og uppþvottavél. Arinstofan er mjög hlýleg og er gott að slaka þar á við arineld og kertaljós í lok dags. Við arinstofuna er ráðstefnusalur fyrir um 100 manns með fullkomnum tæknibúnaði, þ.e. stóru breiðtjaldi, skjávarpa, tölvu og góðu hljóðkerfi.
Úr arinstofu er gengið inn í rými með skrifstofu og þremur misstórum fundaherbergjum. Herbergin eru nefnd eftir íslenskum frumkvöðlum í náttúrvernd, þeim Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra, Páli Sveinssyni landgræðslustjóra og Birgi Kjaran alþingismanni og formanni Náttúruverndarráðs.
Hafið samband við starfsmenn Sesseljuhúss fyrir nánari upplýsingar
Sími 855-6080
Netfang sesseljuhus(hjá)solheimar.is
Bakhjarlar
Sesseljuhús fagnar því láni að eiga sterka bakhjarla en þeir eru Umhverfisráðuneytið og Landsvirkjun.
Margir góðir aðilar studdu byggingu Sesseljuhúss umhverfisseturs. Sólheimar þakka eftirfarandi fyrirtækjum og einstaklingum störf þeirra, styrki og aðstoð við byggingu Sesseljuhúss:
Arkitekt Sesseljuhúss er Árni Friðriksson hjá Arkitektum Skógarhlíð ehf
Verkfræðistofan Fjarhitun annaðist verkfræðilega hönnun
Hönnunarstjóri var Yrsa Sigurðardóttir
Guðmundur Ámundason hafði yfirumsjón með burðarþoli og brunatæknilegri hönnun
Carine Chatenay hafði yfirumsjón með lögnum og loftræsingu
Friðrik Alexandersson og Kristinn Traustason hjá Rafteikningu önnuðust raftæknilega hönnun
Birkir Einarsson sá um landslagsarkitektúr
Cindy Harris byggingaráðgjafi og Phil Horton verkfræðingur frá CAT í Wales veittu hönnuðum ráðgjöf
Hörður Benediktsson hjá Landsneti, þá Landsvirkjun, hannaði orkustýrikerfi hússins
Byggingarstjóri Sesseljuhúss var Árni Leósson