Menu
Menu
parallax

Nám og fræðsla

Nám og fræðsla

Eitt af mikilvægustu markmiðum Sesseljuhúss er alhliða fræðsla um umhverfismál fyrir nemendur á öllum skólastigum, sem og almenning. Sesseljuhús er í samstarfi við ýmsa aðila með fræðlsu, má þar nefna Grunnskólann Kerhólsskóla, sem er grannskóli Sólheima og háskólasamtökin CELL svo fátt eitt sé nefnt. Reglulega eru settar upp sýningar og haldnir fræðslufundir um efni sem tengjast umhverfismálum. Öll eru velkomin á sýningarnar og fræðslufundina og er aðgangur ókeypis.

Fræðslufundir og málþing

Á hverju sumri er haldin röð fræðslufunda um umhverfimsál í Sesseljuhúsi þar sem sérfræðingar á mismunandi sviðum umhverfismála fræða áhugasama um ýmis áhugaverð málefni. Fundirnir eru haldnir á laugardögum og hefjast kl. 15:00.

Öll eru velkomin á sýningarnar og fræðslufundina og er aðgangur ókeypis.

Grunnskólinn Kerhólsskóla

Gott samstarf hefur verið um árabil á milli Sesseljuhúss umhverfisseturs og Grunnskólans Kerhólsskóla (áður Ljósuborgar) í Grímsnes- og Grafningshreppi. Grunnskólinn er staðsettur á Borg í Grímsnesi, um 9 km frá Sólheimum og eru nemendur um 40 talsins.

Samstarfið byrjaði fyrir jólin 2006 en þá var Jólasýning Sesseljuhúss unnin af 1. – 4. bekk og kallaðist Jólasveinninn minn. Í tengslum við sýninguna mætti forstöðumaður Sesseljuhúss í skólann og sagði frá jólasveinunum, jólakettinum og fleiri furðufuglum tengdum íslenskum jólum. Þetta verkefni mæltist svo vel fyrir að ákveðið var að endurtaka leikinn næstu jól. Þá unnu bæði nemendur og kennarar af miklum metnaði sýningu sem kallaðist Náttúran og orkan. Sýningin vakti mikla athygli fyrir fjölbreytileika og fagmennsku.

Vorið 2008 kom skólastjóri Kerhólsskóla, Hilmar Björgvinsson, að máli við forsvarsmenn Sólheima og Sesseljuhúss og viðraði þá hugmynd hvort Sesseljuhús gæti sett saman valnámskeið fyrir 8. bekk skólans. Tekið var vel í þá hugmynd og hófst námið í september 2008. Fyrsti árgangur 8. bekkinga hefur nú lokið tveimur valnámskeiðum í Sesseljuhúsi umhverfissetri. Bekkurinn sótti tvö námskeið í Sesseljuhúsi og lauk hvoru tveggja með gerð sýningarefnis um námsefnið og kynningum á þeirri hópavinnu sem fram fór á Sólheimum. Námskeiðin voru Sólheimar, sagan og starfsemin á haustönn, en þá kynntust nemarnir lífi og starfi á Sólheimum, skoðuðu vinnustofurnar og tóku viðtöl við þá sem þar starfa. Einnig tóku þau til hendinni og fengu að prófa sig áfram í vinnu á vinnustofunum.

Grunnskólinn Kerhólsskóla

Á vorönn sóttu þau styttra námskeið, Sjálfbærni og samfélag manna þar sem umhverfismál voru í forgrunni. Nemendurnir fengu fræðslu um sjálfbæra þróun og unnu verkefni um áhrif manna á umhverfið og þær takmarkanir sem umhverfið setur manninum.

Samstarf Sesseljuhúss umhverfisseturs/Sólheima og grunnskólans hefur gengið með ágætum og hafa heimsóknir unga fólksins sett skemmtilegan brag á lífið á Sólheimum yfir vetrartímann. Skólastjóra, 8. bekknum og kennara þeirra eru þakkaðar góðar samverustundir og skemmtilegt samstarf.

CELL háskólasamtök

Sesseljuhús hefur verið í samstarfi við háskólasamtökin CELL, Center for Ecological Living and Learning, frá árinu 2008. Árlega koma 20 – 30 nemendur á vegum samtakanna á Sólheima og stunda hér hluta af námi sínu. Nemendurnir dvelja á Sólheimum í allt að þrjá mánuði og fer kennslan fram í Sesseljuhúsi. Námskeiðin sem samtökin bjóða upp á eru fjölbreytt en snúa öll að sjálfbærni og umhverfismálum með einhverjum hætti. Einnig fá nemendurnir kennslu í íslenskri tungu, menningu og sögu.

Yfirskrift námsins er sjálfbært líf í sjálfbæru samfélagi og taka nemendurnir virkan þátt í daglegu lífi á Sólheimum með sjálfbærni að leiðarljósi. Stór hluti af náminu er vettvangsferðir um íslenska náttúru, kynnisferðir í íslensk fyrirtæki og stofnanir auk þess sem sérfræðingar á sviði umhverfismála halda fyrirlestra fyrir nemendurna. 

CELL háskólasamtök
CELL háskólasamtök
CELL háskólasamtök
Vafrakökurstillingarnar á þessari vefsíðu eru stilltar á að „leyfa allar vafrakökur“ til að veita þér bestu upplifunina. Vinsamlegast smelltu á Samþykkja vafrakökur til að halda áfram að nota síðuna.
You have successfully subscribed!